Þróun læsis

Læsi er samofið menningu okkar og þó að skólar gegni stóru hlutverki í læsisnámi barna gegnir umhverfi þeirra og samfélagið allt ekki síður mikilvægu hlutverki. Börn koma með ákveðna reynslu í farteskinu inn í nám sitt og sú þekking hefur áhrif á það hvernig þau nýta sér kennsluna í skólanum. Á sama hátt taka þau það sem þau læra í skólanum með sér út í lífið og nýta til virkrar samfélagsþátttöku. Þannig þróast læsi einstaklings í samspili barns, menntastofnana og samfélags.

Læsi byrjar að þróast strax á unga aldri í gegnum samskipti og kynni barna af heiminum í kringum sig. Þau ná tökum á talmáli og átta sig á því hvernig ritað mál, tákn og myndir eru nýtt til að koma upplýsingum á milli manna. Í gegnum þá reynslu sem þau afla sér í gegnum daglegt líf og formlega kennslu eflist færni þeirra smám saman þar til þau hafa náð góðum tökum á öllum helstu miðlum sem við nýtum til að eiga samskipti.

Kennsla í leik- og grunnskólum miðar að því að við lok grunnskóla hafi nemendur náð það góðri færni í öllum undirþáttum læsis að þeir geti nýtt sér læsi á fjölbreyttan hátt til samskipta og miðlunar í því samfélagi sem við búum í. Sú færni byggist upp smám saman í gegnum fjölbreytt viðfangsefni innan og utan skólans. Með því að fylgjast með framvindu hvers nemanda og bjóða þeim upp á viðfangsefni við hæfi má efla og treysta þróun læsis. Í læsisstefnunni er þróun læsis gerð skil í nokkrum þrepum og gefnar hugmyndur um hvernig styðja má við áframhaldandi þróun læsis hjá nemendum.

Þó að hér á síðunni séu gefin ákveðin viðmið um það hvar ætla má að nemendur séu staddir á hverjum aldri er lögð áhersla á að læsi þróast mishratt hjá einstaklingum og mikilvægt er að styðja við hvern og einn nemanda þar sem hann er staddur. Þrepunum er ætlað að hjálpa kennurum að staðsetja nemendur, fylgjast með framförum þeirra og tryggja þeim kennslu við hæfi.

 

Leikskólinn

Á leikskólaárunum er lagður mikilvægur grunnur að frekara læsi, þar er málþroski ein helsta undirstaðan svo og samskipti og reynsla af allra handa mál- og lestrarathöfnum.

Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt (Aðalnámskrá leikskóla 2011, bls. 42).

Læsi í leikskóla ætti að vera samofið daglegu starfi og fara fram í gegnum leik. Í dagsins önn gefast mörg tækifæri til að vinna með málið til dæmis í gegnum umræður, hlutverkaleik, samverustundir, borðvinnu, skipulagt starf og lestur. Málrækt ætti að fléttast inn í allt starf leikskólans og gefa börnum tækifæri á að kynnast tungumálinu og möguleikum þess á fjölbreyttan hátt. Mikilvægt er að virkja áhugahvöt barnanna og gefa þeim næg tækifæri til að tjá sig og koma hugmyndum sínum á framfæri.

Á leikskólaárunum má gera ráð fyrir að flest börn séu á fyrsta þrepi í þróun læsis. Þau ná tökum á töluðu máli og hlustun þegar þau taka þátt í samræðum, hlusta á aðra og æfa sig í að beita tungumálinu í margvíslegum aðstæðum. Þau kynnast ritmálinu þegar lesið er fyrir þau og grunnur að lesskilningi er lagður þegar þau hlusta á samfellt mál og lesinn texta, ræða um efni textans, endursegja, spyrja spurninga og leita svara. Þau byggja upp færni sína í ritun og miðlun með því að krota, teikna og skrifa og læra inn á það hvernig nýta má margvíslega miðla til að koma skilaboðum og hugmyndum á milli manna. Grunnur að lesfimi er lagður í gegnum vinnu með hrynjandi, takt og tónfall og reynslu af því að heyra texta lesinn upphátt. Auk þess þroskast hljóðkerfisvitund mikið á leikskólaárunum og börn byrja að tengja saman stafi og hljóð. Við lok leikskóla eru því flest börn farin að fikra sig upp á annað þrep í þróun læsis og einhver börn uppfylla öll færniviðmið þess þreps.

 

Yngsta stig

Þegar grunnskólaganga hefst hafa börn náð ágætri undirstöðufærni í tungumálinu og aflað sér mikilvægrar þekkingar á læsi sem nýtist þeim í áframhaldandi námi. Áfram verða miklar framfarir í öllum undirþáttum læsis; samræðu, tjáningu og hlustun, lestri og lesskilningiritun og miðlun og lesfimi. Gera má ráð fyrir að flestir nemendur fikri sig upp um tvö þrep í þróun læsis á fyrstu fjórum árum grunnskólagöngunnar og hafi náð þriðja til fjórða þrepi við lok 4. bekkjar.

Í fyrstu bekkjum grunnskóla verða einnig miklar framfarir í lesfimi. Á þessum aldri eru nemendur að ná tökum á táknkerfi ritmálsins. Þeir læra að tengja saman stafi og hljóð til að geta lesið texta. Smám saman æfast þeir í lestrinum og ná góðri lesfimi og má gera ráð fyrir að flestir hafi náð sjötta þrepi í lesfimi fyrir lok 4. bekkjar.

 

Miðstig

Þegar komið er upp á miðstig hafa flestir nemendur náð ágætum grunntökum á lestri og geta flestir nýtt sér lestur til bæði gagns og gamans. Í gegnum sífellt fjölbreyttari læsisverkefni á miðstigi, þar sem reynir á færni nemenda í að sækja sér upplýsingar, meta og miðla á fjölbreyttan hátt, þróast færni nemenda enn frekar í öllum undirþáttum læsis; samræðu, tjáningu og hlustun, lestri og lesskilningi, ritun og miðlun og lesfimi. Gera má ráð fyrir að flestir nemendur séu á þriðja til fjórða þrepi í þróun læsis í 5. bekk og fikri sig upp um eitt til tvö þrep fyrir lok 7. bekkjar.

Flestir nemendur hafa náð ágætri lesfimi þegar kemur upp á miðstig. Þeir hafa náð góðu flæði í lesturinn og geta lesið fumlaust en eiga enn eftir að ná meiri fágun í upplestri og bæta fimi sína í hljóðlestri. Á miðstigi er ekki hvað síst mikilvægt að leggja rækt við það að nemendur efli færni sína í hljóðlestri, nái góðum lestrarhraða þegar lesið er í hljóði og læri að beita mismunandi lestraraðferðum eftir því hvert markmið og tilgangur lestrarins er hverju sinni. Lesfimi nemenda á miðstigi þróast í gegnum fjölbreytt verkefni þar sem unnið er að þekkingarsköpun og miðlun í gegnum lestur og ritun og má gera ráð fyrir að flestir nemendur hafi fyrir lok 7. bekkjar náð efsta þrepi lesfimi.

 

Unglingastig

Þegar komið er upp á unglingastig hafa flestir nemendur náð góðum tökum á lestri og geta nýtt sér lestur til bæði gagns og gamans. Frekari framþróun í læsi á unglingastigi felur í sér meiri leikni í að nýta lestur til að sækja sér upplýsingar og vinna úr þeim, sem og aukna færni í miðlun og framsetningu efnis í töluðu og rituðu máli.

Í gegnum fjölbreyttari verkefni í öllum námsgreinum á unglingastigi, þar sem reynir á leikni nemenda í að sækja sér upplýsingar, meta og miðla á fjölbreyttan hátt, þróast færni nemenda enn frekar í öllum undirþáttum læsis; samræðu, tjáningu og hlustunlestri og lesskilningi, ritun og miðlun og lesfimi

Gera má ráð fyrir að flestir nemendur séu á fimmta þrepi í þróun læsis í 8. bekk og nái efsta þrepinu fyrir lok 10. bekkjar. Flestir nemendur hafa náð góðri lesfimi áður en komið er á unglingastig og viðhalda henni og efla enn frekar með því að fást við fjölbreytt verkefni þar sem reynir á bæði hljóðlestur og raddlestur.

 

Það er mikilvægt að hafa í huga að nemendum sækist læsisnám mishratt. Til að geta stutt við læsisþróun hjá hverjum og einum nemanda er því mikilvægast að átta sig á því hvar hann er staddur í þróuninni, fylgjast með framvindu og meta árangur nemandans út frá framförum hans fremur en samanburði við aðra nemendur.