Hvað er læsi?

Þegar hugtakið læsi ber á góma leiða margir fyrst hugann að umskráningarferli lestrar, því að þekkja stafi og hljóð og geta lesið texta með því tengja saman stafatákn og hljóðmyndir. Sú færni er vissulega mikilvægur þáttur í læsi en til að gagn verði af lestrinum er nauðsynlegt að geta túlkað og skilið það sem lesið er. Í dag er læsi því skilgreint sem víðtæk færni sem felur í sér bæði tæknilega færni og skilning.

Í aðalnámskrá leik- og grunnskóla er læsi skilgreint á eftirfarandi hátt:

Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á (Aðalnámskrá leikskóla 2011, bls. 17; Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011, bls. 19).

Læsi nær því ekki einungis yfir það að geta lesið tákn og umskráð texta, heldur einnig að geta meðtekið og miðlað þekkingu manna á milli með fjölbreyttum hætti. Læsiskennsla felur því í sér fjölbreytta vinnu með mál, samskipti og miðlun.

Í læsisstefnunni Læsi er lykillinn skiptist læsi í fjóra undirþætti:

  • Samræða, tjáning og hlustun
  • Lestur og lesskilningur
  • Ritun og miðlun
  • Lesfimi

Þessir fjórir þættir eru samofnir og færni í einum þætti hjálpar iðulega til við að efla færni í öðrum þætti. Í kennslu þarf engu að síður að huga vel að hverjum og einum þætti til að tryggja farsæla þróun læsis.