Samræða, tjáning og hlustun

Í lýðræðisþjóðfélagi er brýnt að geta tekið virkan þátt í umræðum af ýmsu tagi, geta tjáð skoðanir sínar, hlustað á aðra, rökrætt og komist að niðurstöðu. Þeir sem hafa gott vald á töluðu máli, framsögn og samræðum eru færari um að taka þátt í samfélagsumræðunni og eiga auðveldara með að miðla af þekkingu sinni en þeir sem ekki hafa öðlast þessa færni.

Í aðalnámskrám leik- og grunnskóla er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að efla samskiptafærni sína. Samræða, tjáning og hlustun tengjast sterkt grunnþáttunum læsi og lýðræði og mannréttindum í aðalnámskránni og blasa einnig við í lykilhæfninni sem grunnskólanum ber að stefna að.

Í aðalnámskrá leikskóla er færni í samskiptum og tjáningu útlistuð sem megininntak læsis í leikskóla:

Börn eru félagsverur og hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra. Þau hafa m.a. þörf fyrir að spyrja spurninga, skiptast á skoðunum og ræða hugmyndir sínar, tilfinningar og líðan.

Í gefandi samskiptum og leik eykst félagsfærni og sjálfsmynd styrkist.

Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt (Aðalnámskrá leikskóla 2011, bls. 42).

Í aðalnámskrá grunnskóla kemur samræða, tjáning og hlustun sem fyrr segir við sögu í heildarumgjörðinni og markmiðum sem stefnt er að í gegnum allar námsgreinar, en er einnig gerð skil innan einstakra greina.

Íslenska

Veigamikill þáttur í almennri menntun er að kunna að hlusta og horfa með athygli og á gagnrýninn hátt. Nauðsynlegt er að geta numið þær upplýsingar sem miðlað er með ýmiss konar hljóð-, mynd- og margmiðlun og túlkað og metið þær með gagnrýni í huga. Hlustun er stór þáttur í mannlegum samskiptum. Mikilvægt er að nemendur læri að hlusta á aðra og taka tillit til skoðana þeirra í umræðum og rökræðum (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls 98).

Erlend tungumál

Í tungumálanámi eiga nemendur að öðlast leikni í að beita málinu hnökralítið í frásögnum og samskiptum, þannig að það hæfi tilgangi, aðstæðum og viðtakanda hverju sinni. Námið á að veita nemendum tækifæri til að nota málið á skapandi hátt í ræðu og riti (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 124).

List- og verkgreinar

Við lok 10. bekkjar getur nemandi: tjáð sig um verkefni sín með því að nota hugtök sem greinin býr yfir. Metið eigin verk og annarra og rökstuttmál sitt með þeim hugtökum sem viðkomandi námsgrein býr yfir (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 142).

Stærðfræði

Við lok 4. bekkjar getur nemandi: tjáð sig um stærðfræði, útskýrt hugsun sína um hana fyrir öðrum, leitað lausna og sett þær fram á fjölbreyttan hátt með því að beita skapandi hugsun, ígrundun og rökstuðningi og fylgt rökstuðningi jafningja (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 211).