Heimili og skóli

Í Aðalnámskrá er tekið fram að starfsfólk, nemendur og foreldrar myndi skólasamfélag í hverjum skóla og að mikilvægt sé að þessir hópar vinni saman að mótun þess samfélags. Þar er litið á menntun nemenda sem sameiginlegt og samábyrgt verkefni heimila og skóla. Samstarf heimila og skóla er mikilvægur þáttur í læsisnámi barna og unglinga.

Við gerð læsisstefnunnar fór fram umræða meðal foreldra og kennara um hlutverk og samstarf heimila og skóla um læsisnám barna. Niðurstöður þeirrar umræðu leiddu í ljós sameiginlegan skilning á hlutverkum heimila og skóla og samstarfi þeirra um læsisnám.

Helstu hlutverk heimila í læsisnámi barna og unglinga er að bjóða upp á lestrarhvetjandi umhverfi þar sem þjálfun barnanna í að efla læsi í sinni víðustu mynd fer fram og tryggja það að börnin hafi gott aðgengi að lesefni.

Samstarf milli heimila og skóla þarf að vera gott þar sem regluleg upplýsingagjöf frá báðum aðilum skiptir máli. Fullorðnir, hvort sem það er fólkið á heimilinu eða í skólanum, þurfa að vera læsisfyrirmyndir barnanna. Stuðningur og hvatning við læsisnámið frá bæði heimili og skóla stuðlar að því að læsisnám barna verði árangursríkt og gefandi.

Hlutverk skóla er fyrst og fremst að tryggja kennslu við hæfi með fjölbreyttum kennsluaðferðum og tryggja aðgengi að fjölbreyttu og áhugaverðu les- og námsefni. Skólarnir bera ábyrgð á því að meta og greina stöðu allra nemenda með tilliti til læsisnáms þeirra  og nýta þær niðurstöður til að bregðast við og koma til móts við þarfir þeirra allra.