Ritun og miðlun

Ritun og miðlun eru mikilvægir þættir læsis. Því fjölbreyttari aðferðum sem einstaklingur býr yfir til að miðla þekkingu sinni, hugsunum og upplifun því greiðari leið á hann að samskiptum við aðra og áhrifum í samfélagi sínu.

Ritmál gefur okkur kost á að eiga samskipti við aðra óháð stað og stund. Það gerir okkur mögulegt að skiptast á skoðunum, segja frá, fræða og halda utan um upplýsingar svo fátt eitt sé nefnt. Ný tækni býður upp á fjölbreyttari leiðir til að miðla efni og upplýsingum en áður. Nýta má saman ritmál, myndmál og hljóðupptökur til að koma upplýsingum á milli manna. Nýir miðlar opna ný tækifæri en gera jafnframt kröfu um nýja nálgun í kennslu og námi.

Ritunarnám hefst með kroti barna á leikskólaárunum og þróast síðan áfram í gegnum teikningar þeirra og aðra tjáningu þar sem þau nýta margvíslega miðla til að koma hugmyndum sínum áleiðis til annarra. Tök á hefðbundnu ritmáli opnar börnum síðan enn fleiri möguleika í ritun og miðlun. Á grunnskólaárunum læra börn að nýta ritun á fjölbreyttan hátt í margvíslegum tilgangi sem felur meðal annars í sér að læra inn á ólíkar textategundir og miðla.

Í aðalnámskrám leik- og grunnskóla er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að tjá sig um upplifun sína, hugmyndir og skoðanir. Ritun og miðlun er hluti af grunnþættinum læsi, tengist sterkt grunnþættinum sköpun og blasir einnig við í lykilhæfninni sem grunnskólanum ber að stefna að.

Í leikskólanum ber að skapa börnum tækifæri til að prófa sig áfram með teikningar, ritað mál og aðra miðla og þróa færni sína. Þau þurfa að hafa aðgengi að efniviði sem þau geta nýtt til að æfa færni sína svo sem pappír, skriffærum, litum og smáforritum sem ýta undir sköpun og miðlun.

Í leikskóla á að hvetja börn til að túlka og tjá sig á fjölbreyttan hátt, m.a. í gegnum leik, hreyfingu, myndmál, tónlist, tölur og tákn (Aðalnámskrá leikskóla 2011, bls. 34).

Ritun og miðlun fléttast inn í allar námsgreinar grunnskólans og gegnir einnig mikilvægu hlutverki í lykilhæfni sem lýst er í aðalnámskrá. Ritun er gagnlegt verkfæri til að halda utan um þekkingu sína og gera hugsun sinni og hugmyndum skil og tengist þannig öllum námsgreinum.

Íslenska

Við lok 10. bekkjar getur nemandi tjáð hugmyndir sínar og skoðanir og fært rök fyrir þeim í rituðu máli, samið texta frá eigin brjósti og er óhræddur við að beita ríkulegu tungutaki í skapandi ritun (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 103).

Erlend tungumál

Við lok grunnskóla getur nemandi skrifað ýmsar gerðir af textum, bæði formlega og óformlega og hagað orðum sínum með lesanda í huga og í samræmi við inntak og tilgang með skrifunum (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 129).

Stærðfræði

Við lok 7. bekkjar getur nemandi sett fram, meðhöndlað, túlkað og greint einföld reiknilíkön, teikningar og myndrit sem tengjast umhverfi hans og daglegu lífi (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 129).

Upplýsinga og tæknimennt

Við lok 4. bekkjar getur nemandi notað hugbúnað/forrit við miðlun þekkingar á einfaldan hátt (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 228).