Lesfimi

Lesfimi er hugtak notað um lestrarfærni einstaklings. Góð lesfimi birtist í sjálfvirkum fyrirhafnarlausum lestri þar sem lesið er í viðeigandi hendingum með réttu hljómfalli. Góð lesfimi styður við lesskilning á meðan slök lesfimi getur dregið úr lesskilningi.

Lesfimi samanstendur af þremur meginþáttum, sjálfvirkni, nákvæmni og lestrarlagi sem einnig hefur verið nefnt hljóðfall.

Sjálfvirkni vísar til þess hve hraður og fyrirhafnarlaus lesturinn er. Góður lesari getur lesið áreynslulaust án fyrirhafnar þannig að lesturinn krefst ekki meðvitaðrar athygli. Þegar þessu stigi er náð í lestri getur lesandi í auknum mæli beint hugsun sinni að innihaldi textans.

Nákvæmni vísar til þess hve rétt er lesið. Ef nákvæmni í lestri er lítil er hætta á að merking textans komist ekki til skila. Nákvæmni má meta út frá hlutfalli rétt lesinna orða af heildarfjölda lesinna orða.

Lestrarlag/hljómfall snýr að hrynjandi og áherslum í lestri. Gott lestrarlag felur í sér að lesið er með áherslum sem túlka innihald textans. Stoppað er við punkta og önnur greinarmerki nýtt til að koma blæbrigðum textans til skila í gegnum hljóman orðanna. Það að lesa texta með góðu hljómfalli auðveldar lesandanum að ná inntaki þess sem lesið er, en góður skilningur á því sem lesið er er líka forsenda þess að hægt sé að ljá lestrinum réttan tón.

Að öllu jöfnu fylgist þróun þessara þriggja þátta lesfimi að, þannig að með vaxandi sjálfvirkni eykst nákvæmni í lestri og hljómfallið verður eðlilegra. Hjá nemendum sem sýna hægar framfarir í lesfimi er mikilvægt að greina hvað það er sem heldur aftur af þróuninni svo hægt sé að vinna sérstaklega með þann þátt. Mat á lesfimi hjálpar kennurum að greina lesfimi nemenda nánar en lesfimiþrepin gera.

Þegar lesfimi nemanda er metin er mikilvægt að taka tillit til allra ofangreindra þátta. Lesfimiþrepin sem nálgast má á þessari vefsíðu lýsa þróun lesfimi frá því börn byrja að spreyta sig á lestri og þar til þau hafa náð góðri lesfimi.