Lestur og lesskilningur

Lestur og lesskilningur eru tengd hugtök en merking þeirra er ekki sú sama. Lestur vísar til þeirrar færni að geta lesið í stafi og tákn og umskráð yfir í hljóðastrengi, orð og setningar og nær því yfir tæknilegt ferli lestrar. Lesskilningur snýst aftur á móti um merkingarsköpun, að meðtaka það sem lesið er og leggja skilning í það. Tök á lestri eru nauðsynleg til að hægt sé að lesa sér til skilnings en fleira þarf til að lesskilningur sé tryggður, svo sem málskilningbakgrunnsþekkingu, rökhugsun og ályktunarhæfni.

Málskilningur er meginstoð lesskilnings og er því ein af þeim undirstöðum læsis sem leggja þarf rækt við í skólastarfi. Á leikskólaárunum er lagður mikilvægur grunnur að málskilningi en á þeim aldri eru börn að ná grunntökum á móðurmáli sínu. Mikilvægt er að halda áfram að rækta mál og málskilning barna á grunnskólaárunum því máltöku er langt frá því lokið við 6 ára aldur. Helsta vaxtaskeið orðaforða er til að mynda á grunnskólaárunum og miklar framfarir verða í flókinni málnotkun og textagerð á þeim aldri.

Bakgrunnsþekking, rökhugsun og ályktunarhæfni gegnir einnig mikilvægu hutverki fyrir þróun lesskilnings. Í texta eru oft gefnar takmarkaðar upplýsingar en treyst á bakgrunnsþekkingu lesandans, rökhugsun hans og ályktunarhæfni. Almenn þekking og reynsla getur því skipt sköpum fyrir skilning á texta og kenna þarf börnum að nýta rökhugsun og ályktunarhæfni til að lesa á milli línanna og ráða í merkingu textans.

Fjölþætt málörvun barna á leikskólaaldri gegnir lykilhlutverki í að byggja undir lesskilning þeirra síðar meir. Í aðalnámskrá leikskóla er lögð áhersla á markvissa málörvun í öllu daglegu starfi.

Í leikskóla á að nýta þau tækifæri sem gefast í daglegum samskiptum til að efla íslenska málvitund þar sem börn læra ný orð og hugtök og þróa tungumálið (Aðalnámskrá leikskóla 2011, bls. 34).

Í grunnskólanum er áfram mikilvægt að hlúa að málþroska nemenda, efla orðaforða þeirra með markvissum hætti og ýta undir málskilning með samræðum og miðlun. Huga þarf að lesskilningi í öllum greinum, nýta tækifærin sem gefast til að kenna ný orð og hugtök, kenna nemendum að sækja sér upplýsingar í texta, máta nýja þekkingu við fyrri þekkingu og reynslu, leggja mat á upplýsingar og meta trúverðugleika þeirra og gildi. Í aðalnámskrá kemur lestur og lesskilningur við sögu í öllum námsgreinum.

Íslenska

Við lok 4. bekkjar getur nemandi tengt þekkingu sína og reynslu við lesefni í því skyni að ná merkingu þess.

Við lok 7. bekkjar getur nemandi aflað upplýsinga úr bókum og fjölbreyttu rafrænu efni, unnið úr þeim og nýtt við lausn verkefna, lagt nokkurt mat á gildi og trúverðugleika upplýsinga.

Við lok 10. bekkjar getur nemandi leitað og aflað sér heimilda úr ýmsum gagnabrunnum og lagt mat á gildi og trúverðugleika ritaðs máls, svo sem fjölmiðla- og margmiðlunarefnis, og tekið gagnrýna afstöðu til þess (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 102).

Náttúrugreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi notað einföld hugtök úr náttúruvísindum í textaskrifum.

Við lok 10. bekkjar getur nemandi aflað sér upplýsinga um náttúruvísind úr heimildum á íslensku og erlendum málum (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 170).

Skólaíþróttir

Við lok 10. bekkjar getur nemandi sótt og nýtt sér upplýsingar við alhliða heilsurækt og mat á eigin heilsu (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 185).

Samfélagsgreinar

Við lok 10. bekkjar getur nemandi rökrætt mikilvæg hugtök, sem notuð eru um menningar- og samfélagsmálefni.

Við lok 7. bekkjar getur nemandi metið heimildir og ólík sjónarhorn í umfjöllun um sögu og samtíð (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 198–199).